28.9.2007 | 19:54
Mestmegnis frá þriðja stræti í þorpinu.
Við höfum gefið okkur tíma til þess að skoða brotabrot af menningarflórunni sem New York bíður uppá. Í síðustu viku skelltum við okkur á söngleikina Color Purple og Spring Awakening en báðir eru "on Brodway" eins og það er kallað. Stórir salir og íburðamiklir söngleikir báðir tveir með klassa hljómsveitum. Í Color Purple leikur Fantasia aðalhlutverkið, en hún vann ameríska idólið 2004 minnir mig. Þetta var vel flutt og magnað stykki. Spring Awakening er söngleikur byggður á þekktu leikriti frá nítjándu öld "Vorið vaknar". Það þótti víst mjög djarft á sínum tíma og flutningurinn á því var oft bannaður. Þessi margra Tony-verðlauna uppfærsla gekk ansi langt og hefur sjálfsagt líka hneykslað marga. En söngleikurinn var kröftugur, leikararnir briljant og sýningin áhugaverð.
Björk var með tónleika í Madison Square Garden í vikunni "The World's Most Famous Arena" eins og þeir segja hérna í lítillæti sínu. Þar var ekki alveg uppselt. Höllin tekur um 20.000 manns. Björk fyllti víst Radio City Music Hall í vor en þar eru um 6000 sæti. Ég hef aldrei séð hana á áður á sviði, en hún var lífleg og gefandi. Innkoma Wonderbrassins með "Brennið þið vitar" var áhrifamikil. Maður tárast og fylltist stolti. Sviðsmyndin og effectarnir sem hún notar eru heillandi. Áhorfendur voru vel með á nótunum. Ég heyrði í mönnun sem sátu nálægt okkur sem höfðu flogið langa leið til að sjá hana. Annar hafði séð hana í síðustu viku í Austen en hinn sá hana um daginn í Chicago og í vor í New York. Hún fer svo sjaldan í tónleikaferðalag, þess vegna fara þeir nú svona títt og hafa mikið fyrir því. Annar þeirra sagðist ekki hika við að borga mikinn pening fyrir að sjá hana. Okkar miðar kostuðu 75 dollara en hann sagðist vera til í að borga allt að 900 dollara.
Á þriðjudaginn örkuðum við um ganga Metropolitan Museum of Art. Safnið spannar listasöguna frá steinöld til nútímans, gríðarlega stórt, alveg mögnuð upplifun. Maður undrast hvílíkt ógrynni gersema hefur verið safnað saman hérna.
Jazzklúbburinn Blue Note, einn sá þekktasti hérna, sem er í götunni okkar varð fyrir valinu í fyrrakvöld. Þar söng kona frá Californiu standarda sem hún klessti saman. Þ.e. hún flytur tvö lög samtímis, hún syngur annað lagið og bandið spilar hitt lagið undir. Þetta var alveg þokkalegt, en við höfum oft heyrt magnaðri tónlistarflutning götulistamanna í Washington Square Park, sem er uppáhalds garðurinn okkar.
Á leiðinni heim rákum við nefið inn í pöbb við hliðina á Blue Note, þar var sjóuð og þétt R&B grúppa að spila óskalög fyrir gesti, mikið gaman, enda búið að innbyrða nokkra bjóra ofl þegar hér var komið sögu.
Síðan máttum við til með að kíkja á rússneska kjallarapöbbinn okkar (eini staðurinn hér sem tekur bara reiðufé, aldrei kvittanir né minnst á tax og duldið skuggalegur) sem er hinum megin við hornið okkar. Þar var þokkalegur trúbadúr að spila m.a. bítlalög fyrir okkur og 3-4 aðra áheyrendur. Þarna eru oft ágætir tónlistarmenn en fáir áheyrendur virðast leggja í kjallarann eða rússneska bjórinn (Björgólfs?).
Í gær var Lilja í skólanum fram á kvöld og við fórum seint og um síðir á japanskan veitingastað hér í þriðja stræti. Staðurinn er lítið áberandi frá götunni, höfum oft gengið þarna framhjá en tókum ekki eftir veitingastaðnum fyrr en í gær. Innandyra er staðurinn þeim mun flottari og maturinn framúrskarandi og japanskt-amerískt jazztríó lék undir. Þegar við gengum út á 3rd street rákumst við í flasið á sjónvarpstökugengi og stjórnandinn var kunnuglegur, töffarinn Ian Wright, sem er með vinsæla ferðaþætti sem við horfum stundum á heima, á "Travel Channel". Þá gall við í Lilju og hún gretti sig, "sérðu hvað hann er rosalega lítill". Ian leit á LJ og ég held hann hafi áttað sig á hvað var í gangi, örugglega fengið svipuð viðbrögð áður.
Á heimleiðinni soguðumst við svo eina ferðina enn oní rússneska kjallarabarinn. Aldrei þessu vant var nú fullt útúr dyrum, fengum síðustu sætin. Fimmtudagssöngkonan okkar var mætt með gítarleikaranum sínum og tóku þau okkur fagnandi. Mikið fjör, en auðvitað ekki eins persónulegt og þegar við erum nánast einu áheyrendurnir eins og oftast er reyndin þarna.
Við skötuhjúin erum semsagt smátt og smátt að kynnast stöðunum í og við þriðja stræti eftir mánaðardvöl. Þá eru bara hin 199 strætin á Manhattan eftir. En eins og sagan segir þá mundi manni ekki endast ævin að prófa alla veitingastaði á Manhattan þó farið væri á nýjan stað á hverju kvöldi.
Þó það sé mjög líflegt á kvöldin í þriðja stræti, þá jafnast það örugglega ekkert á við lífið milli þilja í nær 200 ára gömlu húsunum. Byggðin hérna í austurþorpinu á sér merkilega sögu. Þegar straumur vesturfara var sem mestur hingað á nítjándu öld voru þessi þröngu húsakynni byggð. Það er sagt að fólk sem var að flýja fátæktina í Evrópu hafi fundist það hafa farið úr öskunni í eldinn þegar því var troðið í þessi hús. Mikið til í þessu, húsin m.a sérlega eldfim, 6-7 hæða, öll gólf og milliveggir úr timbri og eldsvoðar tíðir á árum áður. Auðvitað er mikið búið að endurbæta húsin, brunastigar utan á þeim og komin salerni, sem ekki var í upphafi. Málningarlögin orðin centimetra þykk, en svo er eins og málningarstússinu haf verið hætt fyrir einni öld eða svo. Okkur grunar að ýmislegt sé í gangi milli þilja hérna, bæði komin með flóabit og öll matarmylsna hverfur fljótt af gólfinu. En auðvitað hafa þessar gömlu íbúðir sinn sjarma líka, hátt til lofts og brakandi gólffjalirnar, tilfinningin eins og að búa í Árbæjarsafninu. 

Um bloggið
Lilja Jóhannsdóttir
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Vá hvað þið eruð að lifa skemmtilegu lífi þessa dagana. Ég vildi að ég væri þið!
Knús og kossar. Dóra
Fatgirl, 29.9.2007 kl. 12:44
Frábært hvað þið skemmtið ykkur vel. Hafið það bara áfram svona gott!
Kveðja, Jöri
Fatgirl, 29.9.2007 kl. 14:21
Mega bloggfærsla. Ekki versnar það hjá ykkur! Gaman að vera til, spræk og hress í Stóra eplinu. Ó, hvað ég vonast til að geta komið í heimsókn.
Bestu kveðjur úr bókagerðinni sem gengur eins og í sögu.
Guðrún Jóhannsdóttir, 29.9.2007 kl. 16:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.